Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fær að skoða síma manns sem grunaður er um margvísleg brot. Þetta er niðurstaða Landsréttar. Maðurinn hefur frá því í haust ítrekað verið handtekinn fyrir margvísleg þjófnaðarbrot.
Ætlað þýfi fyrir milljónir króna hefur fundist á heimili og í fórum mannsins. Þá er hann einnig grunaður um fíkniefnabrot og fjársvik.
Lögreglan vildi skoða síma mannsins enda algengt að menn noti slík tæki til að mynda þýfi áður en því er komið í verð.
Landsréttur fann að því að héraðsdómari málsins hefði frestað réttaráhrifum úrskurðar síns þar til niðurstaða æðra dómstigs lá fyrir. Ekki hafi verið heimild fyrir slíku í lögum um meðferð sakamála.
