Fótbolti

Messi sá fyrsti í 30 ár til að skora aukaspyrnumark í þremur leikjum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi skorar markið sitt um helgina.
Lionel Messi skorar markið sitt um helgina. Vísir/Getty
Lionel Messi afgreiddi toppslag spænsku deildarinnar um helgina og fór langt með að tryggja Barcelona Spánartitilinn með því að skora eina mark leiksins í sigri á Atlético Madrid.

Markið skoraði Messi beint úr aukaspyrnu en þetta var þriðji deildarleikurinn í röð þar sem argentínski snillingurinn skorar beint úr aukaspyrnu.  

Messi skoraði líka beint úr aukaspyrnu í leikjum á móti liðum Girona og Las Palmas.

Messi var jafnframt að skora sitt 600. mark á ferli sínum sem er magnaður árangur hjá þessum þrítuga leikmenni sem er líklegur til að bæta við mörkum á næstu árum.

Þetta er í annað skiptið sem Messi skorar beint úr aukaspyrnu í þremur leikjum í röð en í fyrra skiptið voru tveir af leikjunum þremur í bikarnum.





Núna afrekaði hann það sem Ronald Koeman, Roberto Carlos eða Ronaldinho náðu aldrei í spænsku deildinni sem er að skora aukaspyrnumark í þremur leikjum í röð.

Messi hefur alls skorað fimm mörk beint úr aukaspyrnu í spænsku deildinni á tímabilinu sem er það mesta sem hann hefur gert á leiktíð á ferlinum.







Lionel Messi er með 24 mörk og 13 stoðsendingar í 27 deildarleikjum með Barcelona á tímabilinu en liðið hefur ekki tapað leik og er með átta stiga forskot á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×