Á þriðja tug almennra borgara, sem þurftu nauðsynlega að komast undir læknishendur, tókst í gær að flýja Austur-Ghouta í Sýrlandi. Tókst því annan daginn í röð, í daglegu fimm klukkustunda vopnahléi, að flytja almenna borgara af hinu stríðshrjáða svæði.
Yasser Delwan, einn talsmanna uppreisnarsamtakanna Jaish al-Islam, sagði í yfirlýsingu í gær að enn sem komið væri gengi vel að vinna innan þessa fyrirkomulags. Sagði hann hina flúnu vera 25 talsins. Sýrlenskir ríkismiðlar höfðu svipaða sögu að segja.
Enn eru þó nærri 400.000 almennir borgarar innlyksa í Austur-Ghouta samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Þar er lítinn mat að finna og ekkert um lyf. Hafa SÞ kallað eftir því að um þúsund borgarar fái að flýja svæðið tafarlaust af heilsufarsástæðum.
Sókn stjórnarhers Bashars al-Assad, forseta Sýrlands, hélt áfram í gær og hefur landsvæði uppreisnarmanna í Austur-Ghouta minnkað um meira en helming á þeim vikum sem orrustan hefur staðið yfir. Hún er ein sú blóðugasta í sjö ára sögu sýrlensku borgarastyrjaldarinnar og hafa nærri þúsund fallið.
