Í fyrsta skipti, frá því að núverandi keppnisfyrirkomulag var tekið upp árið 1995, verður ekkert Suðurnesjalið í undanúrslitum efstu deildar karla í körfubolta.
Þetta varð ljóst eftir að Keflavík tapaði fyrir Haukum í háspennuleik að Ásvöllum í kvöld. Eftir leikinn tilkynnti svo Friðrik Ingi Rúnarsson að hann væri hættur körfuboltaþjálfun en hann hefur þjálfað Njarðvík, Grindavík og Keflavík á þessum tíma.
Eftir þessi úrslit er ljóst að í fyrsta skipti verður ekkert Suðurnesjalið í úrslitum en Njarðvík, Keflavík og Grindavík duttu öll út úr 8-liða úrslitunum þetta tímabilið. Tveimur þeirra, Njarðvík og Grindavík, var sópað út, 3-0.
Árið 2011 var vígið nærri því fallið þegar ÍR var einu víti frá því að slá Keflavík út en Keflvíkingar kláruðu einvígið að lokum og voru eina Suðurnesjafélagið sem fór í undanúrslitin það árið.
Liðin sem taka þátt í undanúrslitunum þetta árið verða KR, Haukar, Tindastóll og ÍR en úrslitakeppnin fer af stað í næstu viku.
