Fjórir umsækjendur sóttu um embætti prests við Dómirkjuna í Reykjavík, að því er fram kemur í frétt á vef Þjóðkirkjunnar. Umsækjendur eru í stafrófsröð: cand. Theol. Bryndís Svavarsdóttir, séra Elínborg Sturludóttir, séra Gunnar Jóhannesson og mag. theol. Helga Kolbeinsdóttir.
Skipan séra Evu Bjarkar Valdimarsdóttur í embætti dómkirkjuprests var afturkölluð í október í fyrra. Tildrög þess voru athugasemdir um að ekki hefði verið réttilega staðið að kosningu kjörnefndar prestakallsins. Var séra Eva Björk í staðinn skipuð héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.
Þá var sagt frá því í Morgunblaðinu á sínum tíma að enginn umsækjenda hefði hlotið meirihluta atkvæða 10 manna kjörnefndar og því hefði verið kosið á nýjan leik. Þar hefðu atkvæði skipst jafnt milli Elínborgar Sturludóttur, sem sækir nú um embætti Dómirkjuprests, og Evu Bjargar og því hefði verið varpað hlutkesti þar sem Eva bar hærri hlut.
Í frétt á vef Þjóðkirkjunnar segir að biskup Íslands skipi í embættið frá 1. maí nk. til fimm ára. Umsóknir hljóta umfjöllun matsnefndar um hæfni til prestsembættis og að fenginni niðurstöðu hennar fjallar kjörnefnd prestakallsins um umsóknirnar. Kjörnefnd kýs að því búnu milli umsækjendanna og skipar biskup Íslands þann umsækjanda sem hlýtur löglega kosningu.
