Erlent

ISIS felldi tugi í tveimur árásum í Írak og Kabúl

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Baráttunni gegn ISIS er ekki lokið þótt samtökin hafi misst höfuðvígi "Kalífadæmisins“. Myndin er úr safni.
Baráttunni gegn ISIS er ekki lokið þótt samtökin hafi misst höfuðvígi "Kalífadæmisins“. Myndin er úr safni. Vísir/AFP
Þótt hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki hafi misst nærri allt það landsvæði sem þau sölsuðu undir sig á undanförnum árum eru þau enn fær um að valda gífurlegu tjóni.

ISIS-liðar lýstu yfir ábyrgð á tveimur árásum sem gerðar voru í gær. Önnur þeirra var gerð í norðurhluta Íraks og hin í afgönsku höfuðborginni Kabúl. ISIS-liðinn Talha al-Bishawri sprengdi sig í loft upp í Kabúl þar sem sjíamúslimar voru að fagna nowruz, íranska nýárinu.

Íslamska ríkið, sem og önnur hryðjuverkasamtök, telja að íranska nýárið stangist á við íslam.  Í ábyrgðaryfirlýsingu samtakanna segir að um hundrað hafi farist en afganskir miðlar segja að 26 hafi fallið hið minnsta. Ashraf Ghani, forseti Afganistans, fordæmdi árásina harðlega í gær. Sagði hana glæp gegn mannkyninu.

„Forsetinn hefur skipað viðeigandi aðilum að gera allt sem hægt er til að græða sár þeirra særðu og vottar aðstandendum fórnarlamba samúð sína,“ sagði í yfirlýsingu.  Samtökin réðust einnig á sjíamúslima í Írak, nánar tiltekið á veginum á milli Bagdad og Kirkuk í norðurhluta landsins.

ISIS-miðillinn Amaq greindi frá því að skotið hafi verið á fórnarlömbin með sjálfvirkum rifflum á meðan þau voru um borð í rútu sinni og dóu 35 eða særðust í árásinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×