Sport

Fór fyrst í lyftingasalinn 56 ára en tekur nú 52 kíló í bekkpressu 81 árs gömul

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ernestine Shepherd.
Ernestine Shepherd. Vísir/Getty
Það er aldrei of seint að byrja í íþróttum og hin 81 árs gamla Ernestine Shepherd er frábært dæmi um það.

BBC fékk hina bandarísku Ernestine Shepherd til að segja frá degi í sínu lífi nú þegar hún er komin á níræðisaldurinn.

„Ég vakna hálf þrjú á hverjum morgni. Eftir bænir og hugleiðslu þá fer ég út að hlaupa,“ segir Ernestine Shepherd sem klárar lyftingaæfingarnar sínar vanalega fyrir hálf átta á morgnanna.

„Ég kenni um 45 manna hópi til 11.30 og fer þá heim að borða, legg mig aðeins og hitti eiginmanninn Colin. Ég er vanalega kominn aftur í lyftingasalinn um 17.30 og þjálfa þá fólk á aldrinum 20 til 86 ára til sjö,“ skrifar Ernestine Shepherd.





„Þrátt fyrir að lyftingarnar séu mjög mikilvægar fyrir mig í dag þá fór ég ekki inn í lyftingasal fyrr en ég var orðin 56 ára. Ég var alltaf svo upptekin í vinnunni og svo svakalega sólgin í allar súkkulaðikökur,“ skrifar Ernestine.

„Árið sem ég varð 56 ára fórum ég og systir mín að kaupa sundbol. Við höfðum ekki verið í sundbol í mörg ár og þegar við horfðum á okkur í speglinum þá ákváðum við saman að taka okkur í gegn,“ skrifaði Ernestine.

Velvet, systir mín, sagði við mig: Við ættum að reyna að komast í heimsmetabók Guinness sem elstu vaxtaræktarsystur í heim. Það varð síðan markmiðið okkar,“ skrifaði Ernestine Shepherd.

Velvet veikist hinsvegar snögglega og lést. „Hún sagði við mig að ég ætti að halda áfram að reyna við markmiðið okkar,“ sagði Ernestine sem hún hefur heldur betur gert.

Það má lesa meira um hana hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×