Lík ástralskrar konu fannst í ísilögðu stöðuvatni nærri vinsælum ferðamannastað í Kanada, næstum fjórum mánuðum eftir að hún hvarf.
Tilkynnt var um hvarf konunnar, Alison Raspa, þann 23. nóvember síðastliðinn en síðast hafði sést til hennar þegar hún yfirgaf veitingastað í um fimm kílómetra fjarlægð frá vatninu.
Vegfarandi tilkynnti konunglegu kanadísku riddaralögreglunni að hann hefði gengið fram á lík í vatninu, Alpha Lake, á föstudaginn síðastliðinn. Lögreglan hefur staðfest líkfundinn en dánarorsök liggur ekki fyrir á þessari stundu. Þó er talið ólíklegt að eitthvað saknæmt hafi átt sér satð.
Eftir að Raspa yfirgaf veitingastaðinn steig hún upp í rútu en sendi vinum sínum skömmu síðar smáskilaboð þar sem hún tjáði þeim að hún væri týnd. Lögreglan hóf leit að Raspa í nóvember og fann síma hennar nærri vatninu, þar sem hún svo að lokum fannst, en hvorki tangur né tetur af eiganda hans.
Það var svo ekki fyrr en á föstudaginn sem Raspa fannst svo, um fjórum mánuðum eftir að hún hvarf frá hinu vinsæla skíðasvæði við Alpha Lake. Hún var 25 ára gömul.
