Klukkan 08:45 í morgun barst lögreglunni á Suðurlandi tilkynning um að maður væri látinn í heimahúsi í Árnessýslu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.
Lögregla og sjúkralið fóru þegar á vettvang og staðfestu þá það sem um var tilkynnt. Tilkynnandinn sjálfur, ásamt öðrum manni sem einnig var á vettvangi, eru í haldi lögreglunnar vegna rannsóknar málsins.
Tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi við rannsókn málsins.
Uppfært klukkan 14:36:
Oddur Árnason yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi segir í samtali við fréttastofu að rannsókn málsins standi enn yfir. Búið sé að ná sambandi við flesta aðstandendur hins látna og mennirnir tveir, sem handteknir voru vegna málsins í morgun, eru enn í haldi lögreglu.
Þá er ekki hægt að greina frekar frá málsatvikum að svo stöddu.
