Omar Salama, þjálfari stúlknanna, segir í samtali við Fréttablaðið að hugmyndin að bréfinu hafi kviknað degi áður. Stelpurnar vildu bjóða honum í heimsókn og sendu honum bréf sem hófst á orðunum „Kæri vinur forseti Íslands“.
Á meðan á heimsókninni stóð fylgdist Guðni með stelpunum sýna leikni sína og kænsku við taflborðið.

Stelpurnar halda til Albaníu á morgun ásamt foreldrum sínum til að keppa á HM. „Ein er 6 ára en hinar 5 ára. Þær keppa í aldursflokknum 7 ára og yngri svo við erum örugglega með yngsta liðið,“ segir Omar stoltur. Mótið er með hefðbundnu sniði, tefldar eru kappskákir í níu umferðum. Hver skák getur tekið allt frá tuttugu mínútum upp í þrjá tíma svo ljóst er að mótið er mikil áskorun.
Þær hafa æft stíft undanfarnar vikur, tvisvar til þrisvar á dag í um klukkutíma í senn. Fyrir um tveimur mánuðum fóru æfingarnar að taka meira mið af ferðinni á HM. Þá fóru stelpurnar að skoða leikbyrjanir og endatöfl. Omar bendir á að þrátt fyrir að æfingarnar líti út fyrir að vera stífar sé alls engin pressa lögð á stelpurnar. „Við gerum okkar besta og ætlum að hafa gaman af því.“
Á vef Laufásborgar segir að ferðin á HM sé undirbúin í mikilli samvinnu við foreldra og mikil spenna ríki fyrir henni.