Rannsókn Efnavopnastofnunarinnar á meintri efnavopnaárás á sýrlenska bæinn Douma var frestað enn á ný í gær.
Reuters-fréttastofan greindi frá því að rannsakendur hefðu í þetta skiptið ekki fengið að fara inn á vettvang þar sem skothvellir hefðu heyrst þaðan. Áður höfðu Rússar og Sýrlendingar sagt að ekki væri hægt að tryggja öryggi rannsakenda á vettvangi.
Heimildarmaður Reuters sagði að þótt greint hefði verið frá skothvellum hefðu engar frekari upplýsingar fengist um málið. Stefnt var að því að rannsókn hæfist í gær en það hafði ekki gerst þegar þessi frétt var skrifuð.
Tafir á rannsókninni hafa ekki orðið til þess að bæta samskipti Rússa og Sýrlendinga við Bandaríkjamenn, Breta og Frakka. Síðarnefndu þjóðirnar gerðu loftárásir á skotmörk í Sýrlandi, sem talin voru tengjast efnavopnaþróun og -framleiðslu, um síðustu helgi.
Sýrlendingar og Rússar, helstu bandamenn þeirra, neita því hins vegar staðfastlega að Sýrlendingar hafi gert efnavopnaárás.
Stjórnarher Bashars al-Assad Sýrlandsforseta hefur reyndar alla tíð neitað því að hafa beitt efnavopnum. Þrátt fyrir það komust rannsakendur bæði Efnavopnastofnunarinnar og Sameinuðu þjóðanna að því í fyrra að stjórnarherinn hafði drepið nærri hundrað með saríngasi í bænum Khan Sheikhoun.
Til stendur að rannsakendur safni meðal annars jarðvegssýnum, blóðsýnum og þvagsýnum og tali við vitni á vettvangi. Bandaríkjamenn og Frakkar hafa þó áhyggjur af því að það gæti reynst erfitt í ljósi þess að nærri tvær vikur eru nú liðnar frá meintri árás.
Fá ekki enn að rannsaka vettvang efnavopnaárásarinnar í Douma

Tengdar fréttir

Fulltrúar Efnavopnastofnunar vonast til að komast til Douma
Sérfræðingar Efnavopnastofnunarinnar gera ráð fyrir því að fara til Douma í dag. Þeir segja að sýrlensk og rússnesk stjórnvöld hafi hingað til bannað þeim að skoða svæðið þar sem efnavopnum var beitt. Óttast er að sönnunargögn

Varar við upplausnarástandi ráðist vesturveldin aftur á Sýrland
Vladimir Pútín og Hassan Rouhani ræddust við í síma í dag og voru sammála um að loftárásir vesturveldanna hafa komið í veg fyrir að diplómatísk lausn næðist í málefnum Sýrlands.

Fá að rannsaka Douma
Rannsakendur Efnavopnastofnunarinnar (OPCW) munu fá aðgang að Douma í Sýrlandi í fyrramálið.