Erlent

Beinar viðræður milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump ræddi um fyrirhugaðan fund með leiðtoga Norður-Kóreu þegar myndir voru teknar af honum og Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sem er nú í tveggja daga heimsókn á setri Trump á Flórída.
Trump ræddi um fyrirhugaðan fund með leiðtoga Norður-Kóreu þegar myndir voru teknar af honum og Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sem er nú í tveggja daga heimsókn á setri Trump á Flórída. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði frá því í dag að beinar viðræður færu nú fram á milli „mjög háttsettra“ embættismanna Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. Viðræðurnar eru til undirbúnings fyrirhugaðs leiðtogafundar hans og Kim Jong-un.

Það var við myndatöku með Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, í Mar-a-Lago, setri Trump á Flórída, sem forsetinn viðurkenndi að viðræður á milli þjóðanna væru í gangi. Hann greindi þó ekki frá við hverjir viðmælendur bandarískra embættismanna fyrir hönd stjórnvalda í Pjongjang væru, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„Við höfum átt beinar viðræður á mjög háu stigi, gríðarlega háu stigi, við Norður-Kóreu. Ég trúi því virkilega að þetta leiði af sér velvilja, að góðir hlutir séu að gerast. Við sjáum til hvað gerist...vegna þess að á endanum er það niðurstaðan sem skiptir máli, ekki hvort að við séum að hugsa um að funda eða að funda,“ sagði Bandaríkjaforseti.

Þá sagði Trump að fimm mögulegir fundarstaðir væru til skoðunar en allir þeirra séu utan Bandaríkjanna. Fundurinn gæti farið fram seint í maí eða í byrjun júní. Hann útilokaði þó ekki að ekkert yrði af fundinum á endanum.

„Það er mögulegt að hlutirnir fari ekki vel og að við munum ekki funda og að við höldum bara áfram á þessari mjög sterku braut sem við erum á,“ sagði Trump.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×