Fótbolti

Buffon um Oliver dómara: Með ruslapoka í staðinn fyrir hjarta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianluigi Buffon og Michael Oliver.
Gianluigi Buffon og Michael Oliver. Vísir/Getty
Michael Oliver gaf Real Madrid vítaspyrnu í uppbótartíma og rak Gianluigi Buffon útaf með rautt spjald þegar ótrúleg endurkoma Juventus á Santiago Bernabeu í Meistaradeildinni í gærkvöldi endaði á umdeildum dómi.

Gianluigi Buffon var að spila sinn síðasta leik á ferlinum í Meistaradeildinni og gjörsamlega missti sig þegar enski dómarinn dæmdi víti á 93. mínútu leiksins.

Juventus tapaði fyrri leiknum á heimavelli 3-0 og flestir töldu þá vera úr leik. Þeir komu hinsvegar til Spánar og voru búnir að jafna einvígið með því að komast í 3-0. Það stefndi í framlengingu þegar Michael Oliver dæmdi víti fyrir brot á Lucas.





Buffon gjörsamlega sturlaðist á þeirri stundu og Michael Oliver lyfti rauða spjaldinu.

Buffon var ennþá sjóðheitur þegar hann fór í sjónvarpsviðtal eftir leikinn. „Ég veit að þetta er það sem dómarinn sá en þetta var mjög vafasamt atvik,“ sagði Buffon. BBC segir frá.

„Þetta var aldrei greinileg vítaspyrna og hugsa sér að láta svona vafasamt atvik á 93. mínútu ráða þessu þegar við fengum ekki augljósa vítaspyrnu í fyrri leiknum. Það er ekki hægt að dæma svona,“ sagði Buffon.

„Liðið gaf allt sitt í þetta en ein manneskja getur eyðilagt drauminn í enda ótrúlegrar endukomu með svona vafasömum dómi,“ sagði Buffon.

Vísir/Getty
Enginn enskur dómari fær að dæma á HM í sumar og samkvæmt Buffon þá er Michael Oliver best geymdur upp í stúku þegar alvöru fótboltaleikir fara fram.

„Það er greinilegt að þessi maður hefur ekki hjarta í brjóstkassa sínum heldur aðeins ruslapoka. Ef þú hefur ekki karakterinn til að ganga út á leikvöll eins og þennan í leik sem þennan þá ertu best geymdur upp í stúku með konunni og börnunum étandi snakk og drekkandi þinn drykk,“ sagði Buffon.

„Það á ekki að vera hægt að eyðileggja drauma liðs svona. Ég hefði getað sagt hvað sem er við dómarann á þessari stundu en hann varð bara að gera sér grein fyrir því hvað hann var að gera,“ sagði Buffon um rauða spjaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×