Biðin alltof löng
Um langt árabil hefur verið skortur á hjúkrunarheimilum í landinu þannig að bið eftir hjúkrunarrýmum hefur verið alltof löng, og í mörgum tilvikum óásættanleg. Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023 er tekið með afgerandi hætti á þessu verkefni og um að ræða stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Í fyrri áætlun var gert ráð fyrir uppbyggingu 250 nýrra rýma á tímabili áætlunarinnar en sá fjöldi er nú kominn upp í 550 rými fram til ársins 2023.
Löngu tímabært
Um leið og mikilvægt er að fjölga fjölbreyttum úrræðum fyrir aldraða, bæði í heimahjúkrun, heimaþjónustu og dagdvöl er löngu tímabært að stíga þetta skref sem hér er boðað. Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar á næstu árum, hlutfallsleg fjölgun aldraðra og aukin þjónustuþörf er veruleiki sem þarf að bregðast við í tæka tíð.Stórátak í uppbyggingu hjúkrunarheimila er mikilvægt skref í þágu aldraðra á Íslandi en endurspeglar líka skýra áherslu á heilbrigðismál í víðum skilningi í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Í áætluninni er stóraukin áhersla á málaflokkinn, bæði á framkvæmdir og rekstur, en mikilvægast þó er að stilla saman strengi til framtíðar, móta stefnu og skýra áherslur í þágu samfélagsins alls. Það er meginmarkmið mitt í embætti heilbrigðisráðherra.
Höfundur er heilbrigðisráðherra