Grínistinn Bill Cosby hefur verið dæmdur sekur um nauðgun. Leikarinn hefur verið fyrir dómstólum fyrir að byrla fyrrverandi körfuboltakonunni Andreu Constand ólyfjan árið 2004 og að nauðga henni.
Hann hefur neitað öllum ásökunum en kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að hann sé sekur um nauðgun og Cosby, sem er áttræður, gæti átt yfir höfði sér 30 ára fangelsi. Constand er ekki eina konan sem hefur sakað Cosby um nauðgun en ásakanir á hendur honum ná allt aftur á sjötta áratuginn.
Cosby sneri aftur í réttarsal fyrr í þessum mánuði, um það bil 10 mánuðum eftir að upphafleg réttarhöld yfir honum voru ómerkt, í júní á síðasta ári. Við réttarhöldin reyndu lögmenn Cosbys að draga í efa trúverðugleika Constand. Fimm konur báru vitni gegn Cosby við réttarhöldin en saksóknarar höfðu vonast til að geta kallað nítján konur til sem viti.
Þetta er fyrsta stóra málið sem fer fyrir rétt í Bandaríkjunum þar sem þekktur einstaklingur er sóttur til saka síðan MeToo byltingin fór af stað stað síðasta haust.