„Auðvitað var líka taugastríð á milli liðanna, því neita ég ekki. KR hefur áður sýnt að það getur spilað vel þegar lykilmenn vantar og það er einmitt það sem Tindastóll gerði í kvöld,“ sagði hann en Antonio Hester gat ekki spilað með Tindastóli í kvöld vegna meiðsla. „Allir náðu að bæta sig hjá Tindastóli og við vorum ekki tilbúnir í það.“
Báðum fyrstu leikjunum í rimmunni hefur nú lokið með stórsigri útiliðsins. En nú reiknar Brynjar Þór með jafnari leikjum framvegis.

Helgi Rafn Viggósson fór fyrir baráttuglöðum Sauðkrækingum í kvöld og Brynjar vildi gjarnan hafa hann í sínu liði. „Ég elska hann. Þetta er stríðsmaður sem allir vilja hafa með sér. Hann og Axel [Kárason] eru miklir baráttuhundar. Þeir sýndu það í kvöld og settu líka niður stór skot. Þeir unnu okkur, sem og Pétur Rúnar auðvitað.“