Lögreglustjóri í Mjanmar skipaði lögregluþjónum að leiða tvo blaðamenn Reuters í gildru. Þeir ættu að lokka þá á veitingastað með því að lofa þeim leyniskjölum og svo handtaka þá. Þetta fullyrti lögreglustjórinn Moe Yan Naing í skýrslutöku fyrir dómi í máli gegn Reuters-blaðamönnunum Wa Lone og Kyaw Soe Oo í gær.
Réttarhöldin yfir Lone og Oo hafa staðið yfir frá því í janúar en blaðamennirnir eru ákærðir fyrir að brjóta upplýsingalög. Þeir eiga yfir höfði sér fjórtán ára fangelsisdóm en umfjöllunin sem þeir unnu að snerist um þjóðernishreinsanir á Róhingjum í Rakhine-héraði Mjanmar.
Blaðamennirnir höfðu sagt frá því að þeir hefðu verið handteknir sekúndum eftir að þeir fengu skjölin í hendurnar. Lögreglumennirnir tveir sem handtóku Lone og Oo hafa ekki enn borið vitni í málinu.
Myo Thu Soe, ofursti og talsmaður lögreglunnar, sagði vitnisburð Naing byggðan á tilfinningum lögreglustjórans. Ekki væri hægt að gera ráð fyrir því að frásögnin væri sönn.
Amal Clooney, einn verjenda blaðamannanna, sagði í yfirlýsingu í gær að ákæruvaldið ætti að fella niður ákæru sína. Annars myndi dómari vísa málinu frá.
Blaðamennirnir leiddir í gildru

Tengdar fréttir

Sláandi umfjöllun Reuters vekur umtal
Sláandi umfjöllun blaðamanna Reuters um morð á tíu Róhingjum í Mjanmar leiðir til ákalls um alþjóðlega rannsókn á meintu þjóðarmorði. Tveir blaðamannanna voru sendir í fangelsi við vinnslu umfjöllunarinnar.

Sameinuðu þjóðirnar vilja blaðamenn Reuters í Mjanmar úr fangelsi
Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna kallaði í gær eftir því að Wa Lone og Kyaw Soe Oo, blaðamenn Reuters, yrðu leystir úr haldi.

Blaðamönnum haldið með morðingjum
Samkvæmt mjanmörskum lögum er fjórtán ára fangelsisvist viðurlögin við því broti sem tvímenningarnir eru sakaðir um.