Búast má við að útsynningur, eða öllu heldur suðvestanátt, verði ráðandi þegar kemur að veðurfari þessa vikuna með rigningu og slyddu.
Gert er ráð fyrir hægri suðvestanátt, rigningu eða slyddu, í dag en styttir upp á Vesturlandi í dag.
Vestlæg átt á morgun, gola eða kaldi og sums staðar skúrir eða él, einkum á Suðvestur- og Vesturlandi, en slydda eða snjókoma norðaustanlands í fyrstu. Fremur svalt. Á miðvikudag er útlit fyrir svipað veður áfram.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á miðvikudag:
Suðvestan 3-8 og smáskúrir eða él, en þurrt og bjart veður á N- og NA-landi. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast SA-lands. Víða vægt næturfrost.
Á fimmtudag:
Suðlæg átt, 8-15 m/s með rigningu eða slyddu, en éljum S- og V-lands síðdegis. Úrkomulaust NA-lands. Hiti 2 til 10 stig.
Á föstudag og laugardag:
Útsynningur: Suðvestlæg átt, 5-15 m/s, hvassast vestast. Skúrir eða él S- og V-lands, en bjartviðri NA-til á landinu. Hiti 1 til 10 stig að deginum en allvíða næturfrost inn til landsins.
Á sunnudag:
Vestan 5-10 og skúrir V-lands en léttskýjað A-lands. Hiti 5 til 10 stig.
Á mánudag:
Útlit fyrir sunnanátt og rigningu S- og V-lands. Hiti 5 til 10 stig.
