Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í FH eru á leið í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta eftir sigur á Selfossi í kvöld.
„Við stóðumst þetta álag. Þetta var mikill karakter að koma hingað og vinna en við töpuðum hérna í tvö síðustu skipti. Við komum hérna og spilum flotta vörn í 60 mínútur. Sóknin var öguð og skynsöm og það skilar svona stórum sigrum eins og þessum,” sagði Gísli, sigurreifur í leikslok.
Gísli stýrði sóknarleiknum að vanda og hann var ánægður með hvernig til tókst.
„Sóknin var frábær í fyrri hálfleik en mér finnst við hafa spilað sóknarleikinn frábærlega alla seríuna. Þeir náðu að loka á okkur í síðari hálfleik og spiluðu góða vörn.”
„Að sama skapi náðum við að loka á þá í vörninni okkar megin og uppskárum þriggja marka frábæran sigur á Selfossi.”
ÍBV bíður í úrslitaeinvíginu og Gísli er sannfærður um að FH geti farið alla leið og lyft þeim stóra í ár.
„Er ekki sagt að vörn vinni titla? Vörnin var frábær og komum á óvart með þessari 5+1 vörn. Hún reyndist þeim erfið og Ágúst var frábær,” sagði Gísli.
