Innlent

Möguleiki á berghlaupi vegna sprungu ofan Svínafellsjökuls

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svínafellsjökull er skriðjökull sem gengur út frá Vatnajökli.
Svínafellsjökull er skriðjökull sem gengur út frá Vatnajökli. vísir/sunna
Möguleiki er á stóru berghlaupi niður Svínafellsjökul vegna sprungu ofan jökulsins. Greint er frá málinu á vef Veðurstofunnar en þar segir að haustið 2014 hafi bændur á Svínafelli fundið sprungu ofan jökulsins, nánar tiltekið í norðanverðri hlíðinni milli Skarðstinds og Svarthamra á ofanverðri Svínafellsheiði.

Á vef Veðurstofunnar segir að hlíðin á þessum stað er brött og rís um 400 metra yfir yfirborð jökulsins en í vor uppgötvaðist svo önnur sprunga sem liggur skáhallt niður vesturhlíð Svínafellsheiðar.

„Líklegt þykir að þessar sprungur tengist og að þær séu mögulega hluti af sömu sprungunni í berggrunni. Ef sprungurnar eru tengdar, þá er sá hluti hlíðarinnar sem hreyfist um 1 km2 að flatarmáli og gróft fyrsta mat gefur til kynna að rúmmál efnisins gæti verið yfir 60 milljón m3. Ekki er hægt að útiloka að allt stykkið hlaupi fram í heilu lagi í stóru berghlaupi niður á jökulinn, en einnig gæti það hrunið í smærri hlutum,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Þar kemur jafnframt fram að nákvæmur aldur sprungnanna er ekki þekktur en þær sjást ekki á loftmynd sem tekin var árið 2003. Þær eru hins vegar greinilegar á landlíkani frá 2011. Líklegt er því að sprungurnar hafi myndast og orðið sýnilegar á yfirborði einhvern tíma á þessum árum.

Að því er segir á vef Veðurstofunnar er nauðsynlegt að vakta svæðið og gera mælingar til þess að meta megi hraða og eðli hreyfingarinnar. Veðurstofan og Háskóli Íslands munu vinna að því í sameiningu.

Nánar má lesa um málið hér á vef Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×