Veður

„Þetta verður allt saman stór­vara­samt í fyrra­málið“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Vetrarfærðin hefur valdið umferðartöfum víða um höfuðborgarsvæðið.
Vetrarfærðin hefur valdið umferðartöfum víða um höfuðborgarsvæðið. Vísir/Anton Brink

Búast má við miklum umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu í dag, og strætisvagnar eru víða ekki á áætlun. Gular viðvaranir eru í kortunum og veðurfræðingur á von á mikilli hálku á morgun, þegar snjó tekur að leysa. 

Gular viðvaranir taka gildi ein af annarri á morgun í flestum landshlutum, frá austri til vesturs, vegna hvassviðris eða storms, en á Austfjörðum má búast við miklum leysingum, auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum vegna hækkandi hitastigs. Viðvaranir ná ekki til norðausturlands, suðausturlands eða höfuðborgarsvæðisins.

Svona verður viðvaranakort Veðurstofu Íslands klukkan tvö síðdegis á morgun.Veðurstofa Íslands

Enn er þó slæm færð víða á höfuðborgarsvæðinu, en Vegagerðin vekur athygli á að umferð þar gangi hægt og búast megi við töfum. Í stuttri tilkynningu á vef Strætó segir að búast megi við miklum seinkunum í dag á öllu höfuðborgarsvæðinu, og eru farþegar beðnir um að fylgjast með staðsetningu vagna á rauntímakorti. Fréttastofu hafa borist ábendingar um að strætisvagnar fari hægt yfir, og séu sumir hverjir yfirfullir af farþegum.

Stórvarasamt á morgun

Veðurfræðingur segir að heilt yfir sé að hlýna.

„Það gerir það aðallega í nótt og fyrramálið og það hlýnar dálítið ákveðið,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Þó muni ekki rigna á höfuðborgarsvæðinu.

„Þannig að við fáum ekki vætu ofan í allan þennan snjó, en hann er auðleystur og fer af stað, þannig að það verður dálitill vatnsægi í nótt og fyrramálið. Svo er bara svo mikill klakabunki á vegum og þetta verður allt saman stórvarasamt í fyrramálið, að keyra á þessu. Eftir frostið í nótt þá er þetta orðið samfast við götur og vegina, þannig að menn þurfa að huga vel að því hvað þeir ætla að gera í fyrramálið.“

Snjórinn hverfi um helgina

Hláka verði raunar um allt land, en víðast hvar á landinu hafi snjóað, sem er óvenjulegt fyrir lok október. Von sé á að snjórinn verði horfinn á einhverjum svæðum um helgina.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir mikla mildi að ekki sé mikil rigning í kortunum á höfuðborgarsvæðinu. Næg verði hálkan án hennar.Vísir/Steingrímur Dúi

„Við fáum að minnsta kosti þrjá væna daga með þokkalegum hita, fimm til sex stiga hita á láglendi og blástur með.“

Það sé einkar heppilegt að ekki sé von á rigningu á suðvesturhorninu.

„Ég býð ekki í þetta ef það væri að gera sunnanátt og miklar rigningar eins og stundum gerir á þessum árstíma, ofan í allan þennan snjó. Þannig að við sleppum vel hvað það varðar,“ segir Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×