Enski boltinn

Messan: „Ef þeir geta ekki tryggt Meistara­deildar­sætið eiga þeir það ekki skilið“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Salah virtist þreyttur á sunnudag.
Salah virtist þreyttur á sunnudag. vísir/getty
Strákarnir í Messunni fóru yfir stórleik síðustu umferðar í ensku úrvalsdeildinni, leik Chelsea og Liverpool, á sunnudaginn en Chelsea vann 1-0 með marki frá Oliver Giroud.

Liverpool-menn náðu aldrei þeim hæðum sem þeir eru vanir að ná. Mikið álag hefur verið á liðinu og Jóhannes Karl Guðjónsson, einn spekinga þáttarins, sagðist vilja sjá Klopp dreifa álaginu betur.

„Ég skil ekki afhverju Klopp hvíldi ekki eitthvað af fremstu þremur mönnunum. Hafa Solanke, Danny Ings í byrjunarliðinu og hleypt Salah, Firmino eða Mane inn á síðustu tuttugu mínúturnar,” sagði Jóhannes Karl.

„Það er bara einn maður sem ræður en mér fannst þeir flatir fremstu þrír miðað við hvað maður veit hvað þeir geta. Mér fannst þeir ekki fara á fulla ferð, hvorki pressu né í sóknarleiknum,” og Hjörvar Hafliðason tók í sama streng:

„Svakalega flatt hjá Liverpool í deildinni síðasta mánuðinn. Jafntefli gegn Stoke, Everton, WBA og tap í dag. Púðrið hefur farið í Meistaradeildina en ég held að þetta skipti ekki öllu máli. Ég held að Liverpool klári alltaf Brighton eftir viku.”

Liverpool er ekki enn búið að tryggja sér Meistaradeildarsætið en eiga leik gegn Brighton um næstu helgi þar sem þeir geta klárað dæmið.

„Ef þeir geta ekki tryggt þetta Meistaradeildarsæti þá eiga þeir það ekki skilið en ég held að eftirleikurinn verði þokkalega auðveldur fyrir Liverpool,” sagði Jóhannes Karl.

Alla umræðuna má sjá í sjónvarpsglugganum efst í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×