Sáttafundi í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins sem hófst klukkan 15 í dag lauk um klukkan 16 án þess að niðurstaða fengist í deiluna. Samningar eru ekki í sjónmáli og hefur ríkissáttasemjari boðað til næsta fundar í deilunni eftir rúma viku eða þann 16. maí næstkomandi.
Hópur ljósmæðra og stuðningsfólk þeirra voru með mótmælastöðu fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara fyrir fundinn í dag og klæddust ljósmæður, þar með talin samninganefnd þeirra, bolum með áletruninni „Eign ríkisins.“
Samningar ljósmæðra hafa verið lausir frá því í ágúst í fyrra þegar úrskurður gerðardóms sem þær fengu á sig í kjölfar verkfalls árið 2015 rann út. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara í byrjun febrúar og var fundurinn í dag sá níundi síðan þá.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, sagði í samtali við fréttastofu í gær að það stefni í óefni í Landspítalanum náist samningar ekki á næstu vikum.
„1. júní munu 19 ganga út og svo bætast fleiri við hver mánaðarmót á eftir. Maður sér ekki annað fyrir sér en að hann verði bara óstarfhæfur,“ sagði Katrín.
Fundi ljósmæðra og ríkisins lauk án niðurstöðu

Tengdar fréttir

Heilbrigðisráðherra segir kjaradeilu ljósmæðra ekki þola fleiri daga
"Ég vil standa með baráttu ljósmæðra því að þeirra framlag heilbrigðisþjónustunni er ómetanlegt og ég vil standa með þeim sjónarmiðum sem þær hafa lagt á borðið.“

Telur ólíklegt að samningar náist á morgun í kjaradeilu ljósmæðra
Formaður samninganefndar ljósmæðra segir að ummæli Bjarna Benediktssonar í gær hjálpi ekki til.

Ríkið segir ljósmæðrum óheimilt að taka ekki að sér aukavinnu
Ljósmæðrafélagi Íslands barst bréf frá ríkinu í dag.