Fjórir tyrkneskir stjórnarandstöðuflokkar komust í gær að samkomulagi um að mynda kosningabandalag og bjóða saman fram í þingkosningunum sem fara fram 24. júní næstkomandi.
Lýðveldisflokkurinn (CHP), Góði flokkurinn, Hamingjuflokkurinn og Demókratar mynda bandalagið en CHP er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á yfirstandandi þingi. Hefur 116 af 550 samanborið við 316 sæti Réttlætis- og þróunarflokks (AKP) Receps Tayyip Erdogan forseta.
Miðað við skoðanakannanir er óljóst hvort menn Erdogans haldi meirihluta sínum á þinginu. Kosningabandalag undir forystu AKP mældist með 44,2 prósenta fylgi í könnun sem PIAR gerði á þriðjudag. Hins vegar mældust CHP og Góði flokkurinn með 40,9 prósent samanlagt á meðan fylgi Hamingjuflokksins og Demókrata var talið með öðrum flokkum.
Um er að ræða fyrstu kosningarnar frá því Tyrkir samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að færa völdin frá forsætisráðherra til forseta. Forsetakosningar fara fram samhliða þingkosningum. Erdogan mælist með tæplega tvöfalt meiri stuðning en næstvinsælasti frambjóðandinn, Meral Aksener úr Góða flokknum.

