Innlent

Yfirlýsing Alþjóðasamtaka verkalýðsfélaga: „Það er kominn tími til að breyta reglunum“

Sylvía Hall skrifar
Alþjóðasamtök verkalýðsfélaga segja máttugt afl vinna að því að þurrka út þær reglur sem gilda fyrir alla.
Alþjóðasamtök verkalýðsfélaga segja máttugt afl vinna að því að þurrka út þær reglur sem gilda fyrir alla. Vísir/Anton
Alþjóðasamtök verkalýðsfélaga hafa sent frá sér yfirlýsingu í tilefni 1. maí þar sem farið er yfir verkalýðsbaráttuna og framtíð hennar. Þau segja að ógn steðji að verkalýðsbaráttunni vegna misheppnaðrar hnattvæðingar og valda fyrirtækja.

„Okkur er einnig ljóst að máttugt afl vinnur nú að því að þurrka út þær reglur sem gilda fyrir alla.  Engin takmörk virðast vera á völdum fyrirtækjanna, lýðræðisríki eru í heljargreipum auðugast hundraðshluta mannkyns og stjórnvöld í of mögum ríkjum standa aðgerðalaus hjá í stað þess að standa með vinnandi fólki.“

Samtökin segja mikilvægt að breyta reglunum og berjast gegn því sem ógnar lýðræði og mannréttindum víða um heim. Þau segja framtíð jarðarinnar og íbúa hennar vera í húfi þegar fámennur hópur gengur á auðlindir jarðar:

„Framtíð jarðarinnar og íbúa hennar er í húfi þegar græðgi fámenns forréttindahóps ógnar lífskjörum almennings og efnahagslíkanið sem sá hópur þröngvar upp á heiminn, þurrkar upp takmarkaðar auðlindir jarðar. Lýðskrumi og útlendingahatri vex fiskur um hrygg, í krafti almennrar óánægju sem nærist á ójöfnuði og óöryggi, einkennum misheppnaðrar hnattvæðingar nútímans.“

Yfirlýsingu Alþjóðasamtaka verkalýðsfélaga má lesa í heild sinni vefsíðu þeirra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×