Heilbrigðisráðherra Austur-Kongó hefur tilkynnt að þrjú ný tilfelli af hinni banvænu Ebóla veiru hafi greinst í milljónaborginni Mbandaka við austurbakka Kongó-ár, þetta kemur fram í frétt AP. 17 tilfelli og eitt dauðsfall hafa nú verið staðfest síðan að veiran greindist aftur.
Síðastliðinn föstudag tók Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) þá ákvörðun að enn væri ástæðulaust að lýsa yfir alþjóðlegu neyðarástandi vegna veirunnar. Stofnunin taldi þó mjög líklegt að veiran gæti borist víðar um Austur-Kongó og varaði níu nágrannaríki við hættunni sem af veirunni stafar.
Austur-Kongó er ekki að berjast við Ebólu í fyrsta skiptið en veiran hefur komið upp í 9 skipti síðan 1976 þegar fyrst voru borin kennsl á veiruna. Stærstur hluti tilfella hefur greinst í dreifbýlissvæðum í gegnum tíðina. Veiran hefur í tvígang verið greind í höfuðborginni Kinshasa en hefur þar verið snarlega stöðvuð.
4000 skammtar af bóluefni hafa borist til landsins og er áætlað að bólusetning hefjist snemma í næstu viku.

