Skoðun

Harpa

Óttar Guðmundsson skrifar
Hljómlistarhúsið Harpa var eitt þekktasta kennileiti efnahagshrunsins. Bruðlið og ruglið við byggingu hússins var yfirgengilegt á öllum sviðum. Útveggirnir voru glerlistaverk sem stóðust illa íslensk hamfaraveður. Framkvæmdin var stöðvuð í nokkra mánuði þegar Landsbankinn hrundi haustið 2008. Margir vildu að látið yrði staðar numið og hálfköruð byggingin yrði minnismerki um íslenskan hroka og dómgreindarleysi. Ríki og borg ákváðu þó að fullreisa húsið með miklum tilkostnaði. Talsmenn stofnunarinnar hafa komið reglulega fram í fjölmiðlum til að barma sér og ræða mikinn taprekstur á fyrirtækinu.

Harpa rataði í sviðsljósið á dögunum vegna launastefnu fyrirtækisins. Menn lækkuðu laun þeirra lægstlaunuðu en hækkuðu laun forstjórans á móti. Þetta þótti eðlileg ráðstöfun til að draga úr milljarðatapi hússins. Starfsmenn á plani sættu sig ekki við þetta og voru með uppsteyt og sögðu upp. Harpa svaraði þessum mótmælum starfsmanna fullum hálsi. Nú væri hægt að ráða inn nýtt fólk sem skildi launastefnu og almennar þrengingar fyrirtækisins. Baráttuglaðir verkalýðsforingjar gagnrýndu forstjóra og stjórnarformann fyrir framkomu þeirra gagnvart almennu starfsfólki. Stjórnin sendi þeim líka tóninn. Ekki er að finna neina auðmýkt eða sáttavilja hjá þessu opinbera fyrirtæki.

Það er sorglegt að Harpa hefur ekki orðið lifandi vettvangur listsköpunar á landinu heldur er að verða að táknmynd um íslenskan hroka og dómgreindarleysi í vitund almennings.




Skoðun

Sjá meira


×