Erlent

Kim Jong-un sagður staðráðinn í að láta verða af leiðtogafundinum

Sylvía Hall skrifar
Donald Trump virðist hættur við að hætta við leiðtogafund sinn með Kim Jong-un.
Donald Trump virðist hættur við að hætta við leiðtogafund sinn með Kim Jong-un. Vísir/AFP
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, er sagður vera staðráðinn í því að láta verða af fundi milli hans og Donald Trump Bandaríkjaforseta. Donald Trump sendi frá sér yfirlýsingu síðastliðinn fimmtudag þar sem hann sagði að ekkert yrði af fundi milli leiðtoganna. Þetta kemur fram á BBC.

Jong-un fundaði óvænt með forseta Suður-Kóreu, Moon Jae-in, í gær þar sem leiðtogar ríkjanna tveggja ræddu meðal annars fyrirhugaðan fund Norður-Kóreu og Bandaríkjanna. Voru leiðtogarnir sammála um að farsælast væri að láta verða af fundinum, sérstaklega í ljósi þess að Norður-Kórea hefði tekið skýra afstöðu með afkjarnorkuvæðingu Kóreu-skagans. Sagði Jae-in einnig að Jong-un yrði miður sín ef ekkert yrði af fundinum. 

Trump sagði í yfirlýsingu sinni að fjandsemi og reiði Norður-Kóreu í garð Bandaríkjanna væri helsta ástæða þess að hann ákvað að aflýsa leiðtogafundinum. Yfirlýsingin þótti mikil vonbrigði í ljósi þess að þetta væri í fyrsta sinn sem leiðtogar ríkjanna myndu funda og allt stefndi í sögulegan fund, en mikil spenna hefur verið í samskiptum ríkjanna.

Nú virðist sem Bandaríkjaforseti sé farin að endurhugsa yfirlýsingu sína, en hann lýsti því yfir í gær að leiðtogafundurinn gæti orðið að veruleika eftir að leiðtoginn Jong-un lýsti yfir vonbrigðum með stöðu mála. Sagði Trump yfirlýsingu Jong-un hafa verið vinsamlega og fregnir herma að fulltrúar Bandaríkjanna hafi ferðast til ríkisins í dag fyrir áframhaldandi viðræður. 


Tengdar fréttir

Trump hættur við að hitta Kim

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sent bréf til Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, þar sem hann aflýsir fundi þeirra sem til stóð að halda í Singapúr þann 12. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×