Erlent

Trump segir fundinn enn mögulegan

Samúel Karl Ólason skrifar
Allra augu hafa beinst að þeim Donald Trump og Kim Jong-un undanfarna daga og vikur.
Allra augu hafa beinst að þeim Donald Trump og Kim Jong-un undanfarna daga og vikur. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að enn komi til greina að hann muni funda með Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, í Singapúr þann 12. júní. Forsetinn segir að „afar afkastamiklar“ viðræður um að endurvekja fundinn hafi þegar átt sér stað en hann sendi Kim bréf á fimmtudaginn þar sem hann lýsti því yfir að hann myndi ekki hitta einræðisherrann, vegna „fjandsemi“ Norður-Kóreu í garð Bandaríkjanna.



Í tísti í nótt segir Trump að fundurinn gæti verið haldinn þann 12. júní, eða seinna.

Með þeirri ákvörðun að hætta við fundinn kom Trump bandamönnum sínum í Suður-Kóreu í opna skjöldu og sagði Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, að hann hefði komið að fjöllum varðandi ákvörðunina og honum þætti miður að ekkert yrði af fundinum.

Norður-Kórea sendi frá sér sáttatón og sagðist tilbúið til fundarins hvenær sem er.

Þrátt fyrir breyttan tón Norður-Kóreu er ekkert sem hefur breyst varðandi stöðu ríkisins fyrir fundinni. Ef marka má yfirlýsingar ríkisins eru stjórnendur þess alls ekki tilbúnir til að láta kjarnorkuvopn sín af hendi og Bandaríkin segja ekkert annað koma til greina. Fyrr verði ekki létt á viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum gagnvart Norður-Kóreu.

Sérfræðingur sem AP fréttaveitan ræddi við segir Norður-Kóreu leitast eftir annars konar samningi, þar sem báðar hliðar myndu gefa eftir jafnóðum. Þeir myndu láta vopn sín af hendi í skrefum og og þvinganir yrðu felldar niður samhliða þeim skrefum.



Yfirvöld Norður-Kóreu hafa þó oftar en einu sinni skrifað undir slíka samninga án þess að standa við þá.


Tengdar fréttir

Ekki í fyrsta sinn sem afvopnun er lofað

Norður-Kórea lofar nú að losa sig við kjarnorkuvopnin. Ríkið segist ætla að hætta að vinna að kjarnorkuáætlun sinni. Þótt horfur nú séu góðar sýnir sagan að ríkið hefur áður gert samninga um slíkt og ekki staðið við þá.

Olli vonbrigðum með því að aflýsa fundinum

Donald Trump mun ekki funda með Kim Jong-un í Singapúr í júní. Aflýsti fundinum vegna reiði Norður-Kóreumanna sem hótuðu kjarnorkustríði og kölluðu varaforsetann heimskingja. Ekki er þó öll von úti enn, að mati skýranda BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×