Erlent

Átta konur saka Morgan Freeman um áreitni eða óviðeigandi hegðun

Kjartan Kjartansson skrifar
Mörg vitni segja að Freeman hafi hegðað sér á óviðeigandi hátt í kringum konur í gegnum tíðina.
Mörg vitni segja að Freeman hafi hegðað sér á óviðeigandi hátt í kringum konur í gegnum tíðina. Vísir/AFP

Óskarsverðlaunaleikarinn Morgan Freeman hefur verið sakaður um að áreita konur og óviðeigandi hegðun á tökustöðum og við kynningar á kvikmyndum. Ein kona lýsir því hvernig Freeman hafi ítrekað reynt að fletta upp um hana pilsinu.



CNN-fréttastöðin hefur rætt við sextán manns um hegðun Freeman og átta þeirra saka leikarann um áreitni og óviðeigandi hegðun. Freeman er áttræður en áreitnin á að hafa átt sér stað á ýmsum stöðum.



Á meðal þeirra er ung aðstoðarkona sem starfaði við kvikmyndina „Going in Style“ árið 2015. Hún segir að Freeman hafi ítrekað snert hana gegn vilja hennar og haft uppi ummæli um vöxt hennar og klæðaburð nærri því daglega.



Eitt sinn segir konan að Freeman hafi ítrekað reynt að lyfta upp pilsinu hennar og spurt hana hvort hún væri í nærfötum. Þegar Alan Arkin, mótleikari Freeman í myndinni, hafi á endanum sagt honum að hætta hafi komið fát á Freeman.



Önnur kona sem vann við framleiðslu á „Now You See Me“ árið 2012 segir að Freeman hafi ítrekað áreitt hana og aðstoðarkonur hennar á tökustað með athugasemdum um líkama þeirra.



Heimildarmenn CNN segja að Freeman hafi endurtekið hagað sér þannig að konum hafi liðið illa í vinnunni á tökustöðum undanfarinn áratug. Áreitið á einnig að hafa átt sér stað í kynningarferðum fyrir kvikmyndir og á vettvangi framleiðslufyrirtækis Freeman.



Talsmaður Freeman svaraði ekki fyrirspurnum CNN vegna ásakana kvennanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×