Fundurinn fer fram í dag, mánudaginn 28. maí, klukkan 12 til 13.15 í Hátíðasal Háskóla Íslands og erindi flytja þeir Viðar Halldórsson, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands, Gunnar Valgeirsson, prófessor við California State háskólann í Bandaríkjunum, og Stefán Arnarson, íþróttastjóri KR og þjálfari nýkrýndra Íslandsmeistara Fram í handknattleik kvenna.
Sterk félagsleg og uppeldisleg gildi í íþróttastarfinu, gríðargóður árangur íslensks íþróttafólks á alþjóðavísu og #metoo byltingin gera það meðal annars að verkum að íþróttir á Íslandi standa á ákveðnum tímamótum. Hver þróun íþróttanna verður á komandi árum með hliðsjón af ofangreindum þáttum mun hafa mikil áhrif á upplifun og reynslu barna og ungmenna af íþróttastarfinu í framtíðinni.
Viðar Halldórsson mun í erindi sínu meðal annars fara yfir skipulag, áherslur og stöðuna almennt í íþróttastarfi á Íslandi. Hann mun fjalla um þær stóru áskoranir sem íþróttastarfið stendur frammi fyrir og þau tækifæri sem í þeim felast.
Gunnar Valgeirsson fjallar í framhaldinu um skipulag íþrótta í Bandaríkjunum til samanburðar við Ísland og Stefán Arnarson mun segja frá því hvernig hann samræmir uppeldis- og afreksáherslur í þjálfun sinni.