Erlent

Fjórðungur heimsbyggðarinnar of feitur árið 2045

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Offita verður æ algengari.
Offita verður æ algengari. Vísir/getty
Haldi núverandi þróun í lýðheilsumálum áfram næstu árin mun tæplega fjórðungur mannkyns, eða um 22 prósent, glíma við offitu árið 2045. Það er aukning um 14 prósent frá árinu 2017. Þetta er meginniðurstaða nýrrar rannsóknar sem kynnt var á ársþingi Evrópsku offitusamtakanna í gærkvöld.

Rannsóknarhöfundarnir, þeir Alan Moses og Niels Lund hjá Novo Nordisk í Danmörku, benda jafnframt á að aukning sem þessi í hópi þeirra sem eru of feitir þýði að einn af hverjum átta, eða um 12 prósent heimsbyggðarinnar, muni þjást af sykursýki 2 innan þrjátíu ára. Til að koma í veg fyrir að algengi sykursýki 2 fari yfir 10 prósent árið 2045 þurfi þeim sem þjást af offitu að fækka um 25 prósent fyrir sama tíma.

Rannsóknin byggir á gögnum frá öllum löndum sem skila upplýsingum í gagnagrunn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Moses og Lund horfðu til aldurs, BMI-stuðuls, algengi sykursýki 2 og báru saman við áætlanir Alþjóðasamtaka sykursjúkra.

Moses og Lund benda á að átak gegn offitu og sykursýki muni litlu skila til skemmri tíma. Hér sé um langtímaverkefni að ræða.

„Þessar tölur undirstrika þá yfirþyrmandi áskorun sem blasir við heimsbyggðinni með tilliti til offitu og sykursýki. Um leið og þetta fólk þarf að mæta miklum áskorunum vegna heilsu sinnar þá verður fjárhagsleg byrði fyrir heilbrigðiskerfi landanna gífurleg,“ segir Moses.

Moses ítrekar að engin töfralausn sé til. Hvert og eitt land þarf að byggja aðgerðir sínar út frá félags-, umhverfis- og genaþáttum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×