Fótbolti

Fyrirliði Perú má eftir allt saman spila á HM í Rússlandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paolo Guerrero.
Paolo Guerrero. Vísir/Getty
Paolo Guerrero, fyrirliði Perú, má taka þátt í heimsmeistarakeppninni í Rússlandi en hann hafði áður verið settur í langt leikbann fyrir ólöglega lyfjanotkun.

Guerrero áfrýjaði dómnum og hæstaréttur í Sviss hefur nú gefið honum grænt ljós að spila á HM. „Paolo Guerrero má taka þátt í HM,“ segir í niðurstöðu dómstólsins.  Guardian segir frá.

Guerrero var dæmdur í fjórtán mánaða bann og það bann hefur ekki verið fellt út gildi heldur aðeins fryst til bráðabirgða. Það nægir Guerrero hinsvegar til að fá leikheimild á HM í Rússlandi í sumar.

Paolo Guerrero féll á lyfjaprófi sem var tekið á leik Perú í undankeppni HM. Leifar af kókaíni fundust í sýni hans eftir leik á móti Argentínu í október. Paolo Guerrero hélt því fram að efnið hafi komið úr tei fyrir slysni en að hann hafi ekki verið að nota kókaín.







Þetta er fyrsta heimsmeistarakeppni Perú frá því á HM 1982 en liðið er í riðli með Frakklandi, Danmörku og Ástralíu. Mótherjar Perú töluðu fyrir því Paolo Guerrero fengi að spila á HM.

Paolo Guerrero er 34 ára gamall og hefur verið landsliðsmaður Perú frá 2004. Hann á að baki 86 landsleiki og hefur skorað í þeim 32 mörk eða flest mörk allra landsliðsmanna Perú. Hann bætti á sínum tíma markamet goðsagnarinnar Teófilo Cubillas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×