Fótbolti

Messi „hoppaði“ yfir Ronaldo í nótt og nú á hann bara eftir að ná Pelé

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar í nótt.
Lionel Messi fagnar í nótt. Vísir/Getty
Lionel Messi skoraði þrennu fyrir argentínska landsliðið í 4-0 sigri á Haíti í vináttulandsleik í nótt og það er óhætt að segja að argentínski snillingurinn byrji undirbúninginn sinn fyrir Íslandsleikinn vel.

Messi átti auk þess stoðsendinguna á Sergio Agüero í fjórða markinu. Argentína mætir Íslandi í fyrsta leik sínum á HM í Rússlandi sem hefst eftir rétt rúmar tvær vikur.

Með þessum þremur mörkum í nótt þá hefur Lionel Messi skorað alls 64 mörk fyrir argentínska landsliðið. Hann hafði fyrir nokkru bætt markamet Gabriel Batistuta (54 mörk) sem markahæsti landsliðsmaður Argentínu frá upphafi.

Að þessu sinni komast hann aftur á móti upp fyrir Brasilíumaninn Ronaldo sem skoraði á sínum tím 62 mörk fyrir brasilíska landsliðið.





Messi er þar með orðinn næstmarkahæsti landsliðsmaður Suður-Ameríku frá upphafi.

Það er aðeins Brasilíumaðurinn Pelé sem hefur skorað meira en Messi. Pelé skoraði á sínum tíma 77 mörk fyrir brasilíska landsliðið.

Messi vantar því enn þrettán landsliðsmörk til að ná Pelé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×