Fótbolti

Þjálfari Egypta bjartsýnn á að Salah nái fyrsta leik á HM

Anton Ingi Leifsson skrifar
Salah liggur óvígur eftir viðskiptin vð Ramos.
Salah liggur óvígur eftir viðskiptin vð Ramos. vísir/getty
Hector Cuper, þjálfari Egyptalands, er vongóður um að Mohamed Salah, leikmaður Liverpool og Egypta, verði klár í slaginn 15. júní er Egyptaland spilar sinn fyrsta leik á HM.

Salah meiddist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar fyrir rúmri viku er hann lenti í samstuði við Sergio Ramos og meiddist hann illa á öxl. Hann er nú í kapphlaupi við tímann að ná HM.

„Salah er á góðum stað í bataferlinu og við þurfum að koma honum í góða þjálfun líkamlega því hann hefur misst úr æfingar vegna meiðslanna og ekki æft eins og venjulegur leikmaður,” sagði Hector.

„Við fengum mjög góðar fréttir frá lækni okkar og við vonumst til að hann verði með okkur í fyrstu leiknum gegn Úrúgvæ 15. júní. Við erum bjartsýnir og bíðum eftir honum.”

„Vonandi verðum við ekki fyrir áfalli og við reynum að spila eins og án hans ef til þess kemur. Við getum ekki verið lið sem treystir bara á einn leikmann,” sagði Hector Cuper.

Egyptar eru með Úrúgvæ í riðli eins og áður segir en einnig eru gestgjafarnir, Rússland, og Sádi-Arabar í A-riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×