Aron Rafn Eðvarðsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, er með tilboð í höndunum frá þýsku og austurrísku liði, samkvæmt heimildum Vísis. Þá hefur franskt lið sýnt honum mikinn áhuga auk þess sem að þrjú lið í Olís-deildinni hér heima vilja fá hann í sínar raðir, samkvæmt heimildum Vísis.
Aron Rafn er samningslaus en samningur hans við Íslandsmeistara ÍBV rann út 1. júní. Markvörðurinn magnaði var í miklu stuði eftir áramót og stóð uppi sem deildarmeistari, bikarmeistari og Íslandsmeistari en hann var einnig útnefndur besti leikmaður úrslitakeppninnar.
Frammistaða hans var slík að makedónska stórveldið RK Vardar í Skopje hefur sýnt honum áhuga og beðið um frekari upplýsingar um markvörðinn, samkvæmt heimildum Vísis. Ekkert er þó komið af stað milli Arons og Vardar en það mál er allt á byrjunarstigi og óljóst hversu mikill áhugi Vardar-manna er.
RK Vardar er eitt af stórveldunum í evrópskum handbolta en liðið fór í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra og komst í undanúrslitin aftur á síðustu leiktíð. Liðið hefur tólf sinnum unnið úrvalsdeiildina í Makedóníu, þar af fjögur síðustu ár og fimm sinnum á síðustu sex árum.
Aron Rafn er þessa dagana við æfingar hjá íslenska landsliðinu sem á leik á móti Litháen í umspili um sæti á HM 2019 á föstudaginn. Seinni leikurinn fer svo fram í Laugardalshöllinni 13. júní en Aron er að reyna að vinna sér aftur inn sætið sem hann missti í byrjun janúar.
