Fótbolti

Gylfi spilar líklega á móti Noregi á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson á landsliðsæfingu á dögunum.
Gylfi Þór Sigurðsson á landsliðsæfingu á dögunum. Vísir/Vilhelm
Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, tilkynnti það á blaðamannafundi nú rétt áðan að Gylfi Þór Sigurðsson sé búinn að ná sér að meiðslunum og sé orðinn leikfær.

Gylfi spilar því væntanlega einhverjar mínútur í vináttulandsleiknum á móti Noregi á Laugardalsvellinum annað kvöld. Heimir vildi ekki lofa mínútum en það er hinsvegar mjög líklegt að Gylfi komi eitthvað við sögu.

Þetta eru frábærar fréttir enda Gylfi algjör lykilmaður í íslenska landsliðinu. Með þessu ætti hann líka að ná að spila eitthvað í tveimur landsleikjum áður en kemur að fyrsta leik á HM á móti Argentínu.

Gylfi hefur ekkert spilað síðan að hann meiddist illa á hné í leik með Everton á móti Brighton 10. mars.

Í fyrstu var óttast um hvort Gylfi gæti spilað á HM en fljótlega fór þetta að líta betur út. Hann hefur síðan verið í endurhæfingu frá því í mars og snýr nú til baka inn á fótboltavöllinn 84 dögum eftir meiðslin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×