Um ellefu hundruð manns flugu í gær frá Keflavíkurflugvelli til Moskvu, væntanlega allir sem einn til að horfa á leik Íslands við Argentínu sem fram fer þar í borginni í dag.
Ekki er ljóst nákvæmlega hversu margir Íslendingar fara til Rússlands að fylgjast með HM. Að sögn Sveins Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, er hins vegar vitað að tæplega fimm þúsund Íslendingar hafi fengið útgefin svokölluð FAN-ID, sérstök skilríki sem nauðsynleg eru fyrir þá sem ferðast til Rússlands til að sjá leiki.
Vélarnar sem flugu í gær til Rússlands voru fimm. Ein þeirra var frá félaginu Arkefly með 273 farþega um borð á vegum ferðaskrifstofunnar Vita að því er Lúðvík Arnarson, starfsmaður þar, upplýsir.
Í þremur vélum Icelandair voru um sex hundruð farþegar að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa félagsins. Vita sér um gistingu og fararstjórn fyrir þessa farþega einnig að sögn Lúðvíks.
Þá flaug WOW til Moskvu í gær með fulla vél, 208 farþega, að því er Sverrir Valur Björnsson, verkefnisstjóri hjá félaginu, segir.
Síðasta vélin í loftið í gær áleiðis til Moskvu var TF-ISX, Boeing-þota sem Icelandair lét sérmerkja HM og mála í fánalitunum. Um borð í henni voru meðal annarra meðlimir Tólfunnar, stuðningsmannafélags íslenska landsliðsins.
