Collin Anthony Pryor og Danero Thomas öðluðust í dag ríkisborgararétt og munu því spila sem Íslendingar í Dominos-deild karla á næstu leiktíð.
Undanfarin ár hafa þeir spilað sem Kanar en til dæmis þegar Pryor gekk í raðir Stjörnunnar í fyrra vonuðust einhverjir eftir því að hann myndi teljast sem Íslendingur.
Svo var ekki en nú er hann orðinn Íslendingur. Collin er á mála hjá Stjörnunni en Danero gekk á dögunum í raðir Tindastóls frá ÍR þar sem hafði leikið undanfarin tvö tímabil.
Reglurnar um erlenda leikmenn munu þó breytast á næstu leiktíð. Einungis er leyfilegt að hafa einn Bandaríkjamann áfram en liðin mega hafa eins marga “Bosman” leikmenn og þau vilja.
Bosman-leikmenn eru leikmenn frá þeim löndum sem eru innan evrópska efnahagssvæðisins. Þeir teljast því ekki lengur til erlendra leikmanna.
