Cameron boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslu þar kjósendur fengu tækifæri til þess að kjósa um hvort Bretland ætti að yfirgefa ESB eða ekki. Naumur meirihluti kjósenda kaus með því að Bretland myndi yfirgefa ESB. Málið er eitt helsta deilumál Breta og enn eru skiptar skoðanir um ágæti þess að Bretland yfirgefi ESB.
Dyer, sem helst er þekktur fyrir leik sinn í sápuóperunni Eastenders, var gestur í spjallþættinum Good Evening Britain, ásamt Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins og Pamelu Anderson. Brexit var á meðal umræðuefna.
„Það veit enginn hvað þetta fjandans Brexit er,“ sagði Dyer um væntanlega útgöngu Breta en hann sparaði blótsyrðin ekki í beinni útsendingu. „Þetta er eins og einhver brjáluð ráðgáta sem enginn veit hvað er.“
'It's like this mad riddle' - a frustrated Danny Dyer lets rip to @piersmorgan and @susannareid100 about #Brexit https://t.co/DFAB71aM6l #GEB pic.twitter.com/rH8c5eVGot
— Good Morning Britain (@GMB) June 29, 2018
„Hvað er orðið um fíflið hann David Cameron sem ákvað þetta,“ sagði Dyer og virtist mikið niðri fyrir er hann vísaði til þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
„Hvar er hann? Hvernig gat hann bara skutlað sér í burtu? Hann er í Evrópu, í Nice með lappirnar upp í loft. Hvar er maðurinn? Það þarf að draga hann til ábyrgðar,“ sagði Dyer áður en hann náði að lauma inn einu skammaryrðinu í viðbót.
Í umfjöllun Guardian um eldræðu Dyer segir að myndband af ræðunni hafi verið deilt víða í Bretlandi og sagði Edgar Wright, höfundur mynda á borð við Baby Driver og Hot Fuzz, að Dyer væri nú orðinn þjóðarskáld Bretlands.
Þá segir einnig í frétt Guardian að óvíst sé hvort að Cameron hafi verið í Nice í Frakklandi í vikunni. Hann hafi þó að undanförnu sést á vappi í London á fundum með stjórnmálamönnum og blaðamönnum sem ýtt hefur undir vangaveltur þess efnis að hann ætli sér mögulega að snúa aftur í stjórnmálin.
Cameron hefur að undanförnu unnið að ritun ævisögu sinnar en útgáfu hennar hefur verið frestað til næsta árs. Er Cameron sagður þjást af ritstíflu.