Borealis Data Center áformar að reisa nokkur hús á lóðinni sem þeir fengu úthlutaða og er fyrsta húsið aðeins byrjunin hjá fyrirtækinu. Magn raforku sem hægt er að kaupa ræður því að miklu leyti hversu stórt fyrirtækið getur orðið á svæðinu. Fyrsta húsið er um 650 fermetrar að stærð og verður tekið í notkun innan nokkra mánaða. Áform eru uppi um að byrja á öðru húsi á þessu ári.

Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri Borealis, segir viðræður nú í gangi við raforkuframleiðendur um kaup á orku og þær viðræður gangi ágætlega. Hann segir starf fyrirtækisins geta haft mjög jákvæð áhrif á atvinnulíf á svæðinu þar sem þjónustuaðilar í héraði muni hafa nokkur umsvif í kringum gagnaverið. „Það verður að segjast að vinnuafl á hvert megavatt er nokkuð hátt í gagnaverum en einnig verður nokkuð af útvistuðum verkefnum sem fyrirtæki taka að sér. Einnig erum við með heimaverktaka sem reisa húsin enda markmiðið einnig að skila ábata til samfélagsins,“ segir Björn.