„Leikurinn mun aldrei gleymast því veðrið var með slíkum eindæmum að það var ekki hundi út sigandi. Það var brjálað rok, grenjandi rigning og þegar Nígeríumenn komu út úr búningsklefanum fóru þeir að hlæja því aldrei á ævi sinni höfðu þeir spilað í slíkum aðstæðum enda voru 10 gömul vindstig þarna,“ segir Lárus í samtali við Fréttablaðið þegar hann rifjar upp leikinn. Og engu er þarna logið í þessum lýsingum. Heimildir frá þessum tíma greina frá því hvernig veðrið stal senunni í annars sögulegum leik. Í Dagblaðinu sagði:
„Í versta veðri í 35 ára landsleikjasögu Íslands í knattspyrnu, að viðstöddum fæstum áhorfendum í Reykjavík sigraði íslenzka landsliðið Nígeríu auðveldlega 3-0 […] Íslenzka liðið hafði algjöra yfirburði og sigurinn var í minnsta lagi. Þó stærsti landsleikjasigur Íslands í knattspyrnu, þegar leikir við Færeyinga eru undanskildir.“

Nígeríumenn eiga því engar sérstakar minningar frá bálviðrisleiknum. Haft var eftir þjálfara þeirra þá að Nígeríumenn gætu ekki leikið knattspyrnu við þessar aðstæður. „Okkur var kalt í rokinu og rigningunni.“
Veðurdæmið kann þó að snúast við í svækjunni í Volgograd í dag.
„Þetta var veður sem hentaði þeim alls ekki og þeir höfðu aldrei séð annað eins. Eina sem ég óttast er veðrið á morgun [í dag], ef það verður 35 gráðu hiti þá er það viðsnúningur frá því fyrir 37 árum þegar við höfðum hag af veðrinu en þeir hafa hag af hitanum núna,“ segir Lárus og hlær. Annars kveðst hann mjög bjartsýnn fyrir leikinn.
„Ég spái því að við vinnum 2-0.“