Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað frá máli Anders Behring Breivik á hendur norska ríkinu og mun dómstóllinn ekki taka kvörtun hans fyrir.
Hafði Breivik kvartað yfir því að fangelsisvist hans hafi verið ómannúðleg vegna einangrunarvistar hans, en hann mátti ekki vera í samskiptum við aðra fanga.
Breivik, sem gengur nú undir nafninu Fjotolf Hansen, skaut málinu til Mannréttindadómstólsins eftir að Hæstiréttur Noregs vísaði málinu frá.
Í ákvörðun Mannréttindadómstólsins segir að eftir skoðun málsins fái dómstóllinn ekki séð að norska ríkið hafi brotið á mannréttindum Breiviks, miðað við Mannréttindasáttmála Evrópu.
Breivik var dæmdur til 21 árs fangelsisvistar fyrir hryðjuverk sem hann framdi árið 2011, er hann varð 77 að bana.
