„Ég held að það sé alveg klárt að þetta var versta frammistaða okkar í sumar. Við vorum vondir á allan hátt, kraftlitlir og náðum varla að klukka góða Eyjamenn. Þetta var mjög vondur dagur í dag,“ sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur eftir 3-0 tap gegn ÍBV í Eyjum í dag.
Eyjamenn hafa yfirleitt spilað með þrjá miðverði í sumar en breyttu í dag yfir í 4-4-2 leikkerfið með fínni pressu sem virtist koma Grindvíkingum pínulítið í opna skjöldu.
„Við vorum búnir að tala um að það gæti orðið og þá með tvo framherja eins og þeir gera í hinu kerfinu. Það sem þeir gerðu vel að þegar þeir unnu vel þá keyrðu þeir í svæðið fyrir aftan okkur og við vorum búnir að fara vel í það í vikunni að fara ekki með boltann í svæðin þar sem þeir eru þéttir.“
„En við teiknuðum það svo sannarlega upp fyrir þá í dag og hvað eftir annað fengu þeir boltann á stórhættulegum svæðum og kláruðu þrjú mörk upp úr því,“ bætti Óli Stefán við.
Rodrigo Gomes Mateo var í leikbanni í dag og fyrirliðinn Gunnar Þorsteinsson meiddur. Það var augljóst að Grindvíkingar söknuðu þeirra á miðsvæðinu.
„Það særði jafnvægið í liðinu að annar hvor þeirra var ekki með og svo er Brynjar Ásgeir meiddur líka. Við höfum verið að tala um að hópurinn sé breiðari en í fyrra og þeir sem koma inn eiga að taka við keflinu og spila sig inn í liðið. Það er ekkert við þá að sakast í dag því allt liðið var vont í dag,“ sagði Óli Stefán að lokum.
