Tónleikarnir verða haldnir á Laugardalsvelli þriðjudaginn 24. júlí næstkomandi og er eflaust beðið með mikilli eftirvæntingu.
Hóflegar kröfur komu á óvart
Allur búnaður til tónleikahaldsins, um 56 gámar af varningi auk 100 vörubíla, er kominn til landsins en sveitin sjálf er ekki væntanleg fyrr en í fyrsta lagi á sunnudag, að sögn Björns Teitssonar, upplýsingafulltrúa.Sjá einnig: Guns N' Roses liðar verða eftir og njóta Íslands
Aðspurður segir Björn að tónleikahöldurum hafi helst komið á óvart hvað svokallaður „rider“, eða óskalisti, rokkstjarnanna er hóflegur. Á meðal þess sem hljómsveitin vill hafa aðgengilegt baksviðs á tónleikunum á þriðjudag eru jógadýnur og grænt te – töluverð breyting frá því sem beðið var um á sokkabandsárum sveitarinnar.
„Þeir eru hættir að reykja og drekka og eru að reyna að halda sér í formi út túrinn,“ segir Björn.

Rigning en blankalogn á tónleikadag
Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands er von á töluverðri rigningu í Reykjavík á þriðjudag en Björn segir engar sérstakar ráðstafanir verða gerðar til að halda áhorfendum þurrum. Eins og spáin er núna verður enn fremur blankalogn á tónleikasvæðinu og því ætti hljómburður að vera með besta móti.Þá er gert ráð fyrir að sviðið sem nú er verið að setja upp á Laugardalsvelli verði 65 metra breitt og 22 metrar það sem það rís hæst. Áhorfendur geta auk þess fylgst með meðlimum Guns N‘ Roses á þremur risaskjám við sviðið.
Eins og áður segir er búið að selja 22 þúsund miða á tónleikana og segir Björn að vonir séu bundnar við að selja tvö til þrjú þúsund miða í viðbót.
Í tilkynningu frá tónleikahöldurum kemur fram að hliðin inn á tónleikasvæðið á þriðjudaginn opni klukkan 16:30. Vegna mikils fólksfjölda hefur verið ákveðið að bæta við inngöngum við suðurhlið leikvangsins. Þá mun hljómsveitin Tyler Bryant & The Shakedowns hefja upphitun um klukkan 18 og því næst tekur íslenska rokksveitin Brain Police við. Axl Rose, Slash og félagar stíga svo á stokk um klukkan 20, að því er segir í tilkynningu.
