Alexander Veigar Þórarinsson kom Grindavík yfir strax á áttundu mínútu en Ásgeir Sigurgeirsson jafnaði metin eftir rúmlega hálftíma leik. Grindjánar spiluðu síðustu 20 mínúturnar manni færri eftir að Marínó Axel Helgasyni var vikið af velli.
Ótrúlega uppákoma varð á 48. mínútu þegar að KA komst í 2-1 með marki Elfars Árna Aðalsteinssonar en hann nýtti sér þá skelfileg mistök Kristians Jajalo í marki Grindavíkur.
KA-menn fögnuðu markinu vel og lengi en svo þegar átti að taka miðju var markið allt í einu dæmt af. Enginn vissi hvers vegna, ekki einu sinni fjórði dómarinn þegar að Arnar Björnsson, sem að lýsti leiknum á Stöð 2 Sport, fór niður á völl og spurði Pétur Guðmundsson.
Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, var algjörlega brjálaður og öskraði á dómarana að þeir væru búnir að horfa of mikið á HM eins og heyrðist vel í útsendingunni. Hann öskraði á þá að þeir væru ekki með sjónvörp til að taka ákvörðun svona seint og fékk svo útskýringu frá dómaranum Helga Mikael Jónassyni sem að hann var ekki ánægður með.
Allt það helsta úr þessum rosalega fótboltaleik má sjá hér að neðan.
Mörkin úr leiknum