Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hefur hafði rannsókn á hegðun enskra stuðningsmanna á leik Englands og Króatíu í undanúrslitunum á HM í Rússlandi á miðvikudagskvöld.
England tapaði leiknum 2-1 í framlengingu og spilar til bronsverðlauna á morgun, laugardag, gegn Belgum.
FIFA rannsakar stuðningsmannasöngva enskra stuðningsmanna og hvort þeir hafi verið niðrandi.
„Við getum staðfest að inn var skilað skýrslu um mögulegt níð enskra stuðningsmanna. Rannsókn á málinu hefur verið hafin,“ sagði í tilkynningu frá FIFA.
Á miðvikudag fékk enska knattspyrnusambandið 50 þúsund punda sekt vegna þess að Dele Alli, Eric Dier og Raheem Sterling klæddust bönnuðum sokkum þrátt fyrir viðvaranir FIFA. Leikmennirnir klæddust stuðningssokkum, sem báru merki fyrirtækisins sem framleiddi þá, yfir Nike sokka enska landsliðsins og brutu þar með búningareglur FIFA.
