Handboltamaðurinn ungi, Nökkvi Dan Elliðason, leikmaður Gróttu, er búinn að semja við Arendal í norsku úrvalsdeildinni og heldur nú út í atvinnumennsku, samkvæmt heimildum Vísis.
Nökkvi er 19 ára gamall uppalinn Eyjamaður en hann gekk í raðir Gróttu sumarið 2016 og hefur spilað með liðinu undanfarin tvö ár í Olís-deildinni.
Sjá einnig:Breytingarnar á liðunum í Olís-deildunum
Hann spilaði aðeins þrettán leiki fyrir Gróttu síðasta vetur vegna meiðsla en skoraði 2,7 mörk að meðaltali í leik, gaf 2,2 stoðsendingar og var með HB Statz einkunn upp á 6,4.
Arendal er eitt allra sterkasta liðið í Noregi en það hafnaði í þriðja sæti í deildinni á síðustu leiktíð og komst alla leið í úrslitarimmuna um norska meistaratitilinn. Þar tapaði liðið, 2-1, fyrir Elverum og þurfti að sætta sig við silfrið.
Hjá Arendal hittir Nökkvi fyrrverandi samherja sinn hjá Gróttu, Maximillian Jonsson, sem spilaði með Seltirningum fyrri hluta móts á síðasta tímabili. Jonsson samdi aftur við Arendal í sumar.
Gróttuliðið mætir mikið breytt til leiks á næstu leiktíð en auk Nökkva eru farnir byrjunarliðsmenn á borð við Júlíus Þóri Stefánsson, Pétur Árna Hauksson og Ásmund Atlason.
Einar Jónsson tók við liðinu í sumar af Kára Garðarssyni og er búinn að fá á móti Sigfús Pál Sigfússon, Leonharð Þorgeir Harðarson, Alexander Jón Másson og nú síðast Jóhann Reyni Gunnlaugsson frá Randers í Danmörku.
