Íslenska karlalandsliðið í golfi er á pari og situr í 10.sæti af 16 eftir fyrsta keppnisdaginn á Evrópumótinu sem fram fer í Þýskalandi þessa dagana.
Átta efstu þjóðirnar komast í A-riðil á meðan liðin í sætum níu og neðar keppa í B-riðli. Tvær neðstu þjóðirnar falla svo niður í 2.deild. Á fyrstu tveimur keppnisdögunum er leikinn höggleikur þar sem fimm bestu skorin telja.
Gísli Sveinbergsson úr GK og Rúnar Arnórsson, einnig úr GK léku best á fyrsta degi á tveimur höggum undir pari en samtals er íslenska liðið á pari.
Íslenska kvennalandsliðið keppir í Austurríki og er í 19.sæti af 19 eftir fyrsta daginn á samtals 26 höggum yfir pari.
Þar átti Andrea Björg Bergsdóttir úr GKG bestu frammistöðuna, lék hringinn á tveimur höggum yfir pari.
