Erlent

Afhentu Bandaríkjamönnum líkamsleifar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flogið var með líkamsleifarnar á bandarískan herflugvöll í Suður-Kóreu.
Flogið var með líkamsleifarnar á bandarískan herflugvöll í Suður-Kóreu. Vísir/Getty
Stjórnvöld í Pjongjang afhentu í nótt líkamsleifar sem taldar eru vera bandarískra hermanna sem féllu í Kóreustríðinu á sjötta áratug síðustu aldar.

Líkamsleifunum var flogið til Suður-Kóreu þar sem fulltrúar Bandaríkjahers veittu þeim viðtöku.

Fjöldi hermanna stóð heiðursvörð þegar leifarnar voru fluttar úr vélinni og inn í sendiferðabíla. Vonast er til að aðstandendur hinna látnu, sem beðið hafa í áratugi, fái nú loksins lík þeirra í hendurnar þannig að veita megi hinum föllnu tilhlýðilegar útfarir.

 

Bandarískir hermenn heilsuðu sendiferðabílunum, sem fluttu líkamsleifarnar, að hermannasið.Vísir/AFP
Afhendingin í nótt var táknræn fyrir þíðuna sem komin er í samskipti Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. Kveðið var á um afhendinguna í samkomulaginu sem Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, undirrituðu í Singapúr í júní.

Afhendingin gefur því góð fyrirheit um að samkomulaginu verði fylgt eftir, en það hefur verið gagnrýnt fyrir loðið orðalag og enga nákvæma útlistun. Í samkomulaginu var meðal annars kveðið á um „fullkomna kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans,“ án þess að nefna hvenær það skuli gert eða hvernig. Athöfnin í nótt sýndi þó fram á að Norður-Kóreumenn eru reiðubúnir að fylgja Singapúr-samkomulaginu eftir - alla vega einhverjum hluta þess.

Talið er að líkamsleifar 55 hermanna hafi verið afhentar í nótt. Þær eiga eftir að undirgangast lífsýnarannsóknir og því ómögulegt að segja til um það á þessari stundu hvort raunverulega sé um lík bandarískra hermanna að ræða. Ætla má að rannsóknirnar taki nokkur ár.

 


Tengdar fréttir

Mikilvæg mannvirki rifin í Norður-Kóreu

Gervihnattarmyndir sýna að yfirvöld Norður-Kóreu séu byrjuð að rífa hluta herstöðvar þar sem eldflaugum hefur verið skotið á loft og þær þróaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×